144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:36]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er hálfraunalegt að koma hingað upp eftir að hafa beðið í tæpa viku eftir að komast að. [Hlátur í þingsal.] Ég held að ég hafi verið númer 12 á mælendaskrá í byrjun síðustu viku. Nú er klukkan hálfellefu á þriðjudagskvöldi og ég er kominn að. Ég held að ég muni ekki segja neitt nýtt í þessari umræðu, (Gripið fram í: Nú?) það er búið að segja allt sem segja þarf í umræðunni. (Gripið fram í: Nei.) Ég er hissa ef þingmenn í þessum sal sem eru búnir að standa upp á að giska 20 sinnum í dag hafa ekki sagt allt það sem þeir ætla að segja. (LRM: Það er bara um fundarstjórn.)Ég verð að viðurkenna að mér er misboðið hvernig við í þessu húsi högum okkur. Ég tala um okkur. Ég segi enn og aftur eins og ég sagði í kvöld í ræðu um fundarstjórn forseta að ég bið þjóðina afsökunar á því hvernig við látum hérna. Svo er talað um að það sé mjög nauðsynlegt að hér komi á dagskrá þingsins mál sem séu mikilvæg þjóðinni. Ég er algjörlega sammála ykkur í því. Við erum algjörlega sammála um það en til þess þurfum við að ljúka þessari umræðu. Það er ekki boðlegt að við höldum svona áfram. Það er ekki boðlegt. (Gripið fram í.)

Á síðasta kjörtímabili sat ég heima, (Gripið fram í.) hlustaði á umræðurnar í þinginu í sjónvarpinu og hringdi síðan í flokksfélaga mína. Ég var ekkert ánægður þegar þá var málþóf. Það var ekkert betra þá en núna. Ég verð bara að viðurkenna hér í kvöld að ég öfunda fólkið heima sem getur slökkt á sjónvarpinu. Það er enn ömurlegra að sitja hér í þessum sal en að vera heima og horfa á þetta í sjónvarpinu og vera niðurlægður af þinginu. Ég held að við verðum öll að snúa við blaðinu.

Ég hafði miklar væntingar þegar ég settist inn á hið háa Alþingi. Það voru miklar væntingar til okkar, nýrra þingmanna. Það munum við frá því að við settumst í þingmannaskólann rétt áður en við settumst á þingið að miklar væntingar voru gerðar til okkar um að breyta umræðuhefðinni. Við munum það vel, það er ekki það langt síðan. Maður hafði góðar væntingar um það. Ég tók til dæmis þá ákvörðun að ég ætlaði aldrei að tala um það sem er liðið vegna þess að þar er ekkert sem við getum leyst. Ég er líka búinn að segja það nokkrum sinnum úr þessum stól að við leysum ekkert í fortíðinni, hvort sem er að lesa upp úr gömlum bókum eða annað, lausnin er alltaf fyrir framan okkur og þangað þurfum við að sækja til að leysa málið. Fortíðin er bara svo mikill drullupollur að það er engin ástæða til að bakka þangað. Það er bara þannig. Ég held að við ættum að reyna að taka þessa umræðu af einhverri alvöru. Ég hreinlega meina það, alveg sama hvort ég á í hlut eða þið eða flokkssystkini mín eða aðrir, við verðum bara að hætta þessu.

Ég er búinn að skrifa nokkrar ræður í þessari viku sem ég er búinn að bíða og búinn að henda þeim jafnóðum. Þetta er allt komið fram. (Gripið fram í.) Ég held að vandamál okkar sé það að sú sátt sem þarf að nást er svo langt í burtu. Ég hugsa það enn og aftur sem þingmaður: Hvað er alltaf verið að setja málefni í hendurnar á okkur sem sérfræðingarnir ættu að ráða við og klára? Það eru þeir sem kunna þetta. Það er þannig. Við treystum þeim í rammaáætlun til að fara með það vald. Mikið skelfing vildi ég að þeir gætu klárað þetta frá A til Ö, að við fengjum niðurstöðuna hingað inn í þingið og þyrftum ekki annað að gera en að blessa hana. En okkur er ekki treystandi til þess, við erum búin að sýna það. Þingið er búið að sýna það.

Samt er alltaf verið að senda þinginu alls konar tillögur sem við eigum að gerast sérfræðingar í og erum alls ekki, örugglega enginn af okkur. Ég veit um engan sérstakan sérfræðing í virkjunarmálum í þessum sal. Ég er að minnsta kosti enginn sérfræðingur, það er svoleiðis langt frá því. Ég hef með skoðunum mínum sagt hvernig mér litist á einstaka kosti og var náttúrlega von bráðar kallaður sérfræðingur. Það er lýsandi fyrir umræðuna sem átti að verða svo miklu betri á þessu þingi. Hún átti að verða svo miklu betri. Þeir sem hafa það meira að segja á stefnuskrá flokka sinna að bæta umræðuhefðina eru hvað verstir af öllu liðinu.

Mér finnst að við þurfum einhvern veginn að ná áttum. Ég var að hugsa þetta með sérfræðingana af því að á fund atvinnuveganefndar komu í dag bændur og dýralæknar til að ræða um innflutning á fósturvísum eða erfðaefnum og nú liggur fyrir að ég þarf að taka ákvörðun um hvort það er betra að flytja inn fósturvísa eða erfðaefni. Hvernig í ósköpunum á ég að geta gert það? Ég hef bara ekkert vit á þessu. Það er bara þannig. Auðvitað þarf bændastéttin sjálf að taka ákvörðun um hvernig á að varast þær hættur sem því fylgja, ekki kasta því í hendurnar á þingheimi, að við þurfum að taka pólitíska ákvörðun um það hvort eigi að flytja inn erfðaefni eða fósturvísa. Við þurfum að ná því trausti í samfélaginu að sérfræðingarnir geti gert þetta og að við treystum þeim, nákvæmlega eins og með rammaáætlun. Við þurfum að geta treyst þeim. Við þurfum þetta traust í þjóðfélagið.

Ef við ætlum að halda svona áfram í viku í viðbót eða tvær eða þrjár, eins og ég er búinn að gera ráðstafanir með — ég er til dæmis bara hættur við að fara í sumarfríið sem ég ætlaði að fara í í júní af því að ég reikna með að vera hérna í þessu rugli allan næsta mánuð. Ég sé ekkert annað ef við ætlum að haga okkur svona. En það er ekki dýrasti kosturinn í þessu þó að ég missi af sumarfríinu. Það er ekki það dýrasta, ég held að orðspor okkar verði það dýrasta, það verði vandamálið.

Þetta málþóf er orðið að þjóðarskömm. Ég er eyðilagður yfir því að það skuli vera svoleiðis af því að ég hafði miklu meiri væntingar til okkar, til mín, um að standa okkur í þinginu og að maður geti komið heim á hverju kvöldi og verið sáttur við vinnudaginn, að maður hefði skilað einhverju. Þannig er alvöruvinnustaður, maður kemur heim til sín og maður er ánægður með erfiði dagsins. Það þekkja gamlir skólastjórar og það þekkjum við alls staðar úr atvinnulífinu. Á þessum blessaða stað er það hins vegar list að láta vinnuna ekki ganga. Þá skiptir engu máli hvort það er nú eða þá. Við verðum að breyta þessu. Ég veit að við gerum það ekki í kvöld, kæru vinir, en við verðum að gera það. Það er stóra málið í þessu.

Svo bíður hérna margskrifað blað um hvort ég eigi að fara yfir alla þessa punkta sem allir eru búnir að tala um mörgum sinnum. Mér býður eiginlega við því að þurfa að gera það, að þurfa að bakka aftur í fortíðina og tala um hana. Hún er nefnilega ekki heldur svo glæsileg þar sem svikin byrjuðu. Mér finnst ömurlegt að við ásökum hvert annað í tíma og ótíma og tölum um svik. Þingmenn væna hver annan um að ganga erinda einhvers. Er það það sem við viljum? Og ég spyr: Er það það sem þingmenn eru að gera? Ég veit ekki af hverju þeir spyrja svona. Ég held að við þurfum að athuga hvað við erum að segja í þessari umræðu yfir höfuð. Kæru vinir, við þurfum aðeins að líta upp úr þessu, ekki kannski okkar vegna heldur þjóðarinnar vegna. Þetta snýst ekki um hvort við fáum langt eða stutt sumarfrí, þetta snýst um það að við þurfum að klára þessi mál.

Ég segi úr þessum stól, virðulegi forseti: Við verðum að ná sátt. Hún hlýtur að vera til. Við þurfum að setjast niður og finna sáttina sem við hvert og eitt getum skrifað upp á og haldið svo áfram að vinna. Ég ætla ekki að kenna einum eða neinum um það hver er meiri friðarspillir í þessu máli í dag eða áður. Setjumst niður, horfum fram á veginn og sýnum þjóðinni að við náum sátt í þessu máli.

Ég veit að það er erfitt fyrir marga og ég skil það vel. Ég hef sagt hérna áður, og fékk ákúrur fyrir það, að ég kalla mig náttúrusinna. Ég er náttúrusinni. Mér er ekki sama um það hvernig er virkjað í þessu landi. Það er langur vegur frá því þó að ég sé enginn sérfræðingur í því hvar eigi að virkja. Það verður engin virkjun falleg. Engin virkjun mun bæta landið, en við þurfum líka svolítið að velja þess á milli hvort við förum þann meðalveg sem við getum farið, að gera það í eins mikilli sátt við náttúruna og okkur hefur oft tekist á undanförnum árum, að vinna í sátt við náttúruna og nýta hana af skynsemi. Við erum að gera það með fiskimiðin okkar. Það skiptir miklu máli að við gerum það við fiskimiðin og það skiptir líka miklu máli að við gerum það við landið okkar og séum ekki eilíft að rífast um hver sé meiri náttúruverndarsinni eða minni hvernig sem við lítum á málið.

Þetta snýst líka um framtíð okkar í þessu landi. Það er enginn að tala um að virkja alla kosti út og suður svo ekkert verði til fyrir framtíðina en við þurfum að halda áfram til að við getum byggt upp þetta þjóðfélag sem okkur öll langar svo til að verði betra en það er, til að við lifum betra lífi, til að uppfylla drauma og vonir ykkar og okkar sem erum í þessum sal og erum sífellt að tala um að það vanti meiri peninga í þetta og hitt. Það vantar meiri peninga í heilbrigðiskerfið, í menntakerfið, í velferðina, við vitum það öll, en þeir leka ekki af trjánum. Við þurfum að búa þá til. Við þurfum að framleiða þá. Við þurfum að skapa gjaldeyristekjur til að láta drauma okkar um betra líf á Íslandi rætast. Við verðum að finna sátt um hvernig við ætlum að gera það.

Ég er ekki talsmaður þess að það verði álver í hverjum firði eða kísilver á hverjum tanga, öðru nær. Ég sagði á síðasta kjörtímabili þegar tekist var á um álver í Helguvík og rafmagnið þangað, sem var reyndar marglofað, að það væri kannski síðasta álverið sem við mundum opna. Það eru svo sem engar líkur á að það verði opnað þó að í alls konar sáttmálum ríkisstjórna hafi verið talað um að atvinnumöguleikar fengju tækifæri sem mundu skapa ný störf, fjölbreytt og vel launuð. Það er einmitt það sem unga fólkið okkar bíður eftir. Unga fólkið okkar vill fá vel launuð störf.

Af hverju eru fleiri Íslendingar að flytja til útlanda en heim aftur? Það er vegna þess að þeir fá betur borgað. Ef við horfum á þá iðnframleiðslu sem nýtir orkuna okkar eru það akkúrat vinnustaðirnir sem borga hæstu launin, oft fyrir kannski bara jafnvel minnstu vinnuna. Þar eru byrjunarlaun verkamanns um það bil 500 þús. kr. á mánuði. Það slagar upp í laun þingmanns. Það eru góð laun. Það eru launin sem fólkið okkar sækist eftir. Ég held að við séum sammála um það í þessum sal að við viljum að atvinnulífið geti borgað betri laun, en fyrst og fremst viljum við að kaupmáttur þeirra haldi sér og standi undir velmegun þjóðarinnar. Það snýst allt um það að kaupmátturinn aukist. Við höfum verið heppin vegna þess að hann hefur aukist. Það er trúlega ekki alveg allt okkur að þakka, það er líka alveg örugglega eitthvað fyrri ríkisstjórn að þakka hvernig við tókum við ýmsum málum. Það er ekki allt einum að þakka í því. Við gleymum kannski að þakka fyrir það sem vel er gert.

En ég segi bara, kæru vinir, að nú er ég búinn að henda öllum þessum punktum hérna sem ég ætlaði að tala um af því að ég hreinlega nenni ekki að tala um þetta aftur. Þetta er orðið nóg. Ég held að við ættum hvert og eitt að beita okkur fyrir því innan okkar raða að fara í sáttina, klára þetta mál. Mig langar ekkert að munnhöggvast við vinnufélaga mína hérna þótt við höfum hvert sína skoðunina á málunum. Við verðum að bera virðingu hvert fyrir öðru og því að við höfum hvert sína lífsskoðunina. Einhverjir geta ekki sætt sig við að það séu virkjanir á Íslandi, en það eru aðrir sem sætta sig við það til að skapa hér betra líf. Við verðum að finna þá sátt líka. Það er gríðarlega mikilvægt að fólkið í landinu geti horft hingað upp til okkar með virðingu og séð að við erum að bæta kjörin og bæta heilbrigðiskerfið og að við gerum það með því að ná sátt um málið.

Mér finnst til dæmis mjög gaman að vinna í þeim nefndum sem ég er í, atvinnuveganefnd og velferðarnefnd. Þar hefur varla nokkur maður tekist á um nokkurt mál þó að við séum ekki endilega alltaf sammála. Það hefur verið gert af mikilli kurteisi og yfirvegun. Ég kann að meta það. Við höfum labbað hérna yfir í kaffi og spjallað saman eins og ekkert hafi í skorist. Þannig þarf þetta auðvitað að vera.

Okkur líður ekki vel þegar við erum að höggva hér hvert í annars rann. Ég held að sú pólitík þurfi einhvern veginn að hverfa. Það er ekkert langt síðan ég var kannski einn af þeim sem gerði það en maður eldist, verður reyndari og veit að það er ekkert endilega það besta þótt maður eigi það allt í handraðanum. Það breytir málunum ekkert. Það mun engu breyta að ausa aur yfir vini sína og samstarfsfélaga.

Ég held, kæru vinir, að við ættum að breyta þessari umræðu, taka það upp í alvöru að breyta þingsköpunum þegar fram líða stundir. Við eigum ekki að gera það í dag en við þurfum að finna einhverja sátt um það líka að við getum sagt okkar skoðanir, að það séu einhver takmörk fyrir því þannig að við misnotum það ekki. Það er engum til góðs og alls ekki þeim verkefnum sem við erum að ræða um. Þau eru alvarleg, þau eru mikilvæg og við þurfum að lenda þeim.

Þau orð sem hér hafa fallið eiga mjög mörg rétt á sér hvorum megin sem þau eru sögð og margar góðar ræður hafa verið fluttar. Það er alveg klárt mál og ég get tekið heils hugar undir með mörgum um það.

Það er líka forvitnilegt að blaða í bunkanum sem ég er með og skoða það sem þeir sem hafa komið fyrir nefndina hafa sagt okkur í þessum málum, sérfræðingarnir sjálfir. Þeir hafa sagt ýmislegt sem við getum ekki ráðið við heldur. Ég tek laxamálið í Þjórsá sem dæmi. Veiðimálastofnun hefur sagt á fundi með okkur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að í rauninni væri engu við það mál að bæta af því að það er í rauninni nákvæmlega sama þótt það yrði rannsakað oftar og meira, niðurstöðurnar yrðu alltaf gagnrýniverðar. Það mun aldrei koma niðurstaða sem allir verða sáttir við. Þannig eru vísindin og þannig eru skoðanir okkar líka. Við munum aldrei ná einhverri einni sátt um laxastofninn í Þjórsá, jafn mikilvægur og hann er. Við höfum reynt að finna leiðir til að hann komist af í þeim hugmyndum sem þar hafa verið uppi um virkjanir.

Ég keyri yfir Þjórsárbrúna næstum því oft í viku. Þetta er einhver fallegasti staður á Íslandi, það er alveg ljóst, en það er kannski nauðsynlegt að við finnum einhverjar leiðir til að nýta hluta af þeim virkjunum sem þar eru í boði. Það hefur komið fram að til þess að gera það af mestu varúð yrði byrjað á Hvammsvirkjun og síðan Holtavirkjun og séð hvernig afraksturinn yrði þannig við tækjum sem minnsta áhættu. Ég held að það sé málið, ágætu vinnufélagar í þessum sal, að við tökum sem minnsta áhættu fyrir náttúruna, reynum að vinna í sátt með henni og líka hérna saman á hinu háa Alþingi.