144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við þurfum vissulega að ræða saman. Þá þurfum við að fara að koma með einhverjar lausnir sem virka til þess að útkljá þennan ágreining sem er um dagskrána. Nú er auðvelt að benda á minni hlutann og hvað hann er vondur að tala svona lengi um málin. En þetta er það eina sem minni hlutinn hefur. Ef við hefðum ekki þetta tæki, þ.e. að geta kvartað meira eða minna eins lengi og okkur sýnist, þá gætum við alveg eins farið heim til okkar eftir kosningar og skilið allt valdið eftir hjá meiri hlutanum. Þetta er það eina sem við höfum. Ég ítreka það. Þannig að minni hlutinn þarf eitthvað til þess að hafa raunveruleg áhrif. Minni hlutinn á þingi er 40% þingmanna. Meiri hlutinn er 60% þingmanna, ekki 100% þingmanna, heldur 60% þingmanna. Hann hefur hins vegar 100% valdsins, mínus þetta eitt, málfrelsi minni hlutans. Ef það er ekki nógu gott lengur, sem ég er alveg sammála að það er ekki, þá þurfum við eitthvað annað. Ég legg til dæmis til málskotsrétt minni hluta þingsins, málskotsrétt þjóðarinnar. Það eru til margar svona lausnir. En ættum (Forseti hringir.) við þá ekki að einblína á þær leiðir áður en (Forseti hringir.) við förum með dagskrána, sem sést ekki (Forseti hringir.) oft í sjónvarpinu, hingað inn á þing?