144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var afar mikilvægt svar hjá hv. þingmanni, þ.e. að segja hér í mjög flókinni umræðu eftir mjög langar umræður og mikil átök að einn þeirra valkosta sem séu uppi á borðinu til þess að leysa þann hnút sem er upp kominn sé að draga breytingartillögu atvinnuveganefndar til baka. Ég hvet hæstv. forseta að hlusta mjög vel eftir því að þessi hugmynd skuli vera þannig séð af fulltrúa meiri hlutans í atvinnuveganefnd að hún sé umræðunnar virði og umhugsunarinnar virði. Ég hvet virðulegan forseta til þess að grípa inn í umræðuna og reyna að kalla til einhvers konar fundar þingflokksformanna eða annarra forustumanna flokkanna áður en umræðunni er haldið lengur áfram, því það er fullt tilefni til. Ég vona að hæstv. forseti sjái að hér er að skapast algjörlega ný staða sem mér finnst afar mikilvægt að við áttum okkur á.