144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður, sem flutti síðustu ræðu, hafi gert hana betri af því að hann þurfti að bíða í viku. Ég þakka honum fyrir hreint ágætt innlegg í það sem við erum hér að fást við.

En mig langar aðeins að velta upp nokkrum hlutum í ljósi þess að við höfum verið að biðja um að fá formlega fram tillöguna sem hv. þingmaður, formaður atvinnuveganefndar, sagðist hér áðan ætla að skoða með starfsfólki hvort leggja bæri fram. Við þekkjum það að hæstv. utanríkisráðherra sagði að ekki þyrfti að taka mark á þingsályktunum, við munum það, það er ekki langt síðan: Er það sem sagt svo að við hvaða þingsályktunartillögu sem er sé hægt að gera breytingar á síðustu metrunum, fara beint í atkvæðagreiðslu þegar við stjórnarandstöðuþingmenn erum búin að tala okkur alveg rauð, er það þá þannig, gildir það um allar þingsályktunartillögur að slíkt sé hægt að gera, að breyta þeim (Forseti hringir.) jafnvel mjög mikið? Þá velti ég til dæmis upp samgönguáætlun, eða hverju öðru. Er þingsályktun ekki gilt eintak eða hvað er það, herra forseti?