144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku lét ég orð falla úr þessari pontu um þennan dagskrárlið sem ég hef séð svolítið eftir síðan. Ég sagði, í samhengi við nokkur illa valin hjá hæstv. forsætisráðherra, að þingmenn greiddu atkvæði eins og þeim væri sagt. Svo sá ég hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og sá strax svolítið eftir því vegna þess að nokkrir hv. þingmenn hafa sýnt þann manndóm að koma á framfæri sínum eigin sjónarmiðum af einlægni og virðingu fyrir þinginu. Og mér finnst hv. þm. Ásmundur Friðriksson hafa gert það í dag. Því sé ég enn þá meira eftir þeim orðum mínum vegna þess að hér sé ég tækifæri til samtals, tækifæri til að takast á við þetta af þeim mikla þroska sem mér sýndist hv. þingmaður sýna hér. Ég vona að við getum haft þetta til eftirbreytni, frestað þingfundi og hafið samtal.