144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skil út af fyrir sig vel að forseti vilji gjarnan að þessari umræðu fari að ljúka en ég vil segja í fyllstu einlægni að ég mundi ætla að skilaboðin væru að fara að komast til skila. Hér er sameinuð stjórnarandstaðan staðráðin í því að láta ekki bjóða sér og þinginu og þjóðinni þann málatilbúnað sem hér hefur verið í boði. Við höfum okkar þingræðislega rétt og hikum ekki við að nýta hann til að koma þeim skilaboðum rækilega á framfæri.

Það er að sjálfsögðu til bóta að lágmarksþingvenjur séu virtar í sambandi við það ef til stendur að hræra enn í þessum breytingartillögum en ég vil að minnsta kosti fyrir mig og þann sem hér stendur taka það algerlega skýrt fram, það má forseti heyra, að ég tel að það eina sem geti talist þingræðislega verjandi í afgreiðslu þessa máls er þá upphafleg tillaga fyrrverandi umhverfisráðherra og annað ekki á þessu þingi. (Gripið fram í.)