144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það ríkir einfaldlega grafalvarlegt ástand í samfélaginu og okkur ber skylda til að hafa þau mál á dagskrá í þinginu en ekki þessa vægast sagt umdeildu breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar við rammann.

Ég bið þingheim að ímynda sér aðra atburðarás en þá sem hefur verið í þingsal undanfarna daga. Það er vel hægt að ganga til atkvæðagreiðslu um tillögu umhverfisráðherra eins og hún var lögð fram, um það að Hvammsvirkjun verði sett í nýtingarflokk. Fyrir því eru góð rök. Sú tillaga er búin að fara í gegnum verkefnisstjórn rammaáætlunar og það er búið að ljúka umfjölluninni. Hinir virkjunarkostirnir sem eru lagðir þarna til hafa ekki farið í gegnum lögbundið ferli rammaáætlunar. Þótt þessar virkjanir yrðu samþykktar hérna með breytingartillögunni mundi það vafalaust þýða (Forseti hringir.) lögsókn og málaferli og það er ekki eins og þær verði að veruleika (Forseti hringir.) strax við það þannig að frestum bara þessu máli. Dragið til baka (Forseti hringir.) breytingartillöguna, komið skikki á þingstörfin og förum að ræða alvarlegri mál.