144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum í heila viku rakið þá miklu meinbugi sem eru á því að ræða þetta mál þegar það brýtur svo augljóslega gegn lögum um rammaáætlun sem raun ber vitni. Þegar svo bætast við þær staðreyndir að það er búið að tilkynna að dreginn verði til baka einn virkjunarkosturinn, málið hefur ekki komið til baka til nefndar og því breytt og það komið með eðlilegum hætti inn í þingið er algjörlega orðið fráleitt að ræða þetta mál áfram. Þingvenjan er sú að mál eru tekin aftur inn í nefnd og koma þá breytt til baka inn í þingsal .

Síðan kom líka fram í umræðum hér í gærkvöldi af hálfu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar að það er mjög á reiki hvern skilning meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lagt í það verk sem hún hefur hafið. Í því ljósi er líka full ástæða til þess að málið fari aftur til alvörumeðferðar í nefndinni. Frá hv. þingmanni kom ákall um samstöðu og um að fagmenn fengju að vinna að þessum (Forseti hringir.) verkum. Til þess var rammaáætlun búin til. Tillagan er aðför að því. Við skulum leyfa fagmönnum að vinna þessi verk.