144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þrátt fyrir að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir komi ríðandi til þings undir gunnfána frekari ófriðar get ég sagt hæstv. forseta frá því að jafnvel mitt lífsreynda hjarta hrærðist undir ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar í gær. Ég styð þessa tillögu vegna þess að hún er í anda þess ákalls sem hv. þingmaður kom fram með um að menn ræddu saman og reyndu að finna sameiginlega lausn. Ég styð það að þetta mál verði tekið af dagskrá. Það nýtur ekki stuðnings hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, það er ekki í anda laganna samkvæmt áliti umhverfisráðuneytisins, það er í andstöðu við lögin líka samkvæmt áliti atvinnuvegaráðuneytisins og ég held að það sé kominn tími til að við tökum önnur mál á dagskrá, mál sem varða fólkið í landinu, kjaramálin, þar sem ríkisstjórnin lyftir ekki litla fingri til að koma að lausninni. Sömuleiðis brenna húsnæðismálin á landsmönnum. Þetta eru málin sem við eigum að vera að ræða, herra forseti. (Forseti hringir.) Þess vegna styð ég dagskrártillöguna.