144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að fagna yfirlýsingu varaformanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu. Hann gefur kost á því, væntanlega fyrir hönd þingflokksforustunnar, að málið sem hér hefur verið sett á dagskrá gangi til nefndar og fái þar frekari umfjöllun. Það gætir þó nokkurs misskilnings í máli þingmannsins að þar með væri óhætt að ljúka umræðunni en augljóslega gengur málið ekki til nefndar nema umræðan standi enn þá yfir og hafi verið frestað, því að þetta er síðari umræða um þingsályktunartillögu. Til að forseti geti orðið við tillögu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að láta málið ganga til nefndar er nauðsynlegt að samþykkja þessa dagskrártillögu núna og taka þannig undir ákall hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar frá því í gærkvöldi um að menn setjist aftur yfir þetta mál í atvinnuveganefnd og reyni að finna á því einhverja skaplega lausn en hætti þessari vitleysu hér í þingsalnum.