144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er kannski óviðeigandi að segja það en ef það mætti verða til þess að gleðja þingheim þá eru enn þá 12 eintök eftir af þeirri bók sem hér er komin nokkuð til umræðu.

En umræðunni miðar samt nokkuð áfram og líknin kemur oft úr óvæntum áttum. Ég vek athygli hv. þingheims á því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson bauð hérna áðan af réttsýni síns milda hjarta að þetta mál færi til nefndar. Ég vil taka því boði. Ég tel að það væri mjög mikilvægt ef okkur tækist að fá umræðu um málið í nefndinni eins og hv. þingmaður bauð áðan. Ástæðan fyrir því að ég tel það mikilvægt er að komið hefur fram, að minnsta kosti hjá einum þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem flutti ræðu hér í gærkvöldi, að honum var ókunnugt um minnisblaðið frá auðlinda- og umhverfisráðuneytinu sem skýrði af hverju það er í andstöðu við lögin að leggja þessa tillögu fram. Ég mælist þess vegna til þess að tillagan verði samþykkt og nefndin fái tækifæri til þess að (Forseti hringir.) upplýsa þingmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu um hvað má og má ekki (Forseti hringir.) samkvæmt úrskurði ráðuneytisins.