144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð ekki þá tillögu sem hér er lögð fram. En það er afar einkennilegt að upplifa að hér er rammaáætlun til umræðu undir hverjum einasta dagskrárlið, hvort sem það er í fundarstjórn forseta, atkvæðagreiðslu, störfum þingsins eða fyrirspurnum til ráðherra, en ekki undir réttum dagskrárlið.

Hér fer fram efnisleg umræða um rammaáætlun undir öllum þessum dagskrárliðum, en því miður, virðulegi forseti, vill stjórnarandstaðan alls ekki setja málið á dagskrá. Samt ræða þeir þetta hérna dag eftir dag. [Háreysti í þingsal.] (VBj: … fá ráðherra til að koma í …) Hreint með ólíkindum. Þetta snýst nefnilega ekki um að finna sátt í málinu heldur snýst þetta um að stjórnarandstaðan vill ráða.