144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu því hér er verið að gera í raun og veru það eina rétta sem er að taka þetta mál af dagskrá og freista þess að ná einhverri skynsamlegri lendingu í málinu. Það er í raun og veru sorglegt til þess að hugsa hvernig meiri hluti þingsins er mannaður hér þegar frammíköll, gaspur, útúrsnúningar og stælar hefjast áður en þingmaðurinn byrjar eða opnar munninn. Það er ástandið hérna í þinginu. Það er ástandið í innyflum (Gripið fram í.) hv. þingmanna meiri hlutans hvers á fætur öðrum. Og hér (Gripið fram í.) bætast fleiri og fleiri í hópinn eftir því sem þessari umræðu vindur fram. Ég vil biðja hv. þingmenn meiri hlutans og okkur öll aðeins að horfa í eigin barm núna og greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu.