144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[10:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

[Kliður í þingsal.] Herra forseti. (VigH: Málþóf.) Ég leita ráða hjá hæstv. forseta. Í umræðunni áðan kom fram einlægur friðarvilji hjá einum af hv. þingmönnum stjórnarliðsins. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði það að tillögu sinni að málið yrði kallað til nefndar til að það yrði skoðað betur. Ég tel að fyrir því séu mörg rök, m.a. þau að það hefur komið fram hjá að minnsta kosti tveimur þingmanna stjórnarliðsins að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að í gögnum málsins lá fyrir alveg skýr og rökstudd afstaða frá lögfræðingum tveggja ráðuneyta sem benda á að það samræmist ekki lögunum að leggja þessa tillögu hér fram til afgreiðslu.

Og nú leita ég ráða hjá herra forseta. Ég vil gjarnan notfæra mér þetta boð hv. þingmanns og fá málið aftur til umræðu í nefndinni og spyr hæstv. forseta: Getur hann liðsinnt mér í því efni?