144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er auðvelt fyrir þingmenn eins og hv. 2. þm. Reykv. s. að sitja, væntanlega á skrifstofunni eða í matsal eða hvar sem er, og hlusta á fólk hér inni eyða tíma sínum í þetta mál. Þá er auðvelt að benda á minni hlutann og segja: Vondi minni hlutinn er bara að tala. Ja, við erum í það minnsta að tala. Það er auðvelt fyrir meiri hlutann að sitja á bekknum til hliðar og bíða, það er ekki erfitt.

Ég tek ofan fyrir þeim hv. þingmönnum sem hafa kvatt sér hér hljóðs og tekið þátt í umræðunni, m.a. um fundarstjórn forseta. Hún er mjög mikilvæg, virðulegi forseti, eins og við sjáum af þeirri staðreynd að þetta mál hefur verið hér til umræðu í heila viku í algjöru ábyrgðarleysi virðulegs forseta, og það segi ég með fullkominni virðingu fyrir þingi og þjóð og virðulegum forseta. Það liggur fyrir að þetta mál þarf að fara í nefnd aftur og það liggur fyrir að það er ekki (Forseti hringir.) hægt nema með því að fresta umræðunni og að sjálfsögðu á að gera það, virðulegi forseti, að sjálfsögðu, það er augljóst.