144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir hvernig dagskráin verður í þinginu í dag, stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að við ræðum áfram rammann. Hann telur forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar við núverandi aðstæður að halda áfram að ræða það mál.

Ég ætla ekki að gera ágreining við hæstv. forseta um það en bið hæstv. forseta að íhuga mjög alvarlega það sem var í dagskrártillögunni, að taka á dagskrá á morgun málefni á vinnumarkaðnum. Það er grafalvarlegt ástand þegar menn eru hættir að ræðast við.

Þetta tengist líka þessu máli vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað látið eins og rammaáætlunin sé mikilvægt innlegg í tekjuöflun vegna kjarasamninga. Þar með vil ég líka ítreka það sem ég bað um ítrekað í gær og fékk aldrei svör við, að biðja hæstv. forseta að tryggja að hæstv. forsætisráðherra verði við umræðuna og ræði rammann út frá þessum sjónarmiðum, þótt ekki sé annað. (Forseti hringir.) Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við fáum hæstv. forsætisráðherra til að vera við þessa umræðu í dag og ég bið hæstv. forseta að beita sér fyrir því.