144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á það hér að forseti geri nú hlé á þessum fundi og fari yfir málið með þingflokksformönnum. Það er ekki boðlegt að láta þetta halda svona áfram. Menn bera ekki einu sinni nægjanlega virðingu fyrir sjálfum sér og þinginu til að koma hingað og eiga að minnsta kosti við okkur efnislegt samtal um málið. Ef stjórnarþingmenn láta sjá sig í þessum sal fylgir þeim bara einhver skætingur með einni og einni undantekningu. Eitthvað hafa menn á samviskunni. Og ég verð að segja líka alveg eins og er að mér finnst gríðarlegur tvískinnungur í því sem menn halda fram í umræðunum og mikilvægt að fara yfir hann. Það er líka mikilvægt að hver og einn þingflokksformaður fari yfir stöðu málsins með sínum þingmönnum, geri þeim að minnsta kosti grein fyrir því lágmarksatriði að þetta sé síðari umr. um málið og þar af leiðandi lokaumræða og það verði (Forseti hringir.) ekki meiri vinnsla með það í þinginu. Menn virðast ekki einu sinni vera með það á hreinu en eru til í að standa gleiðir í ræðustól og skammast yfir því að við skulum standa hér og reyna að vinna málið eitthvað áfram.