144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem var óhönduglegt í byrjun verður sífellt erfiðara og vandræðalegra og er orðið þinginu til háborinnar skammar. Yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra í morgun um að hún ætli ekki að skýra afstöðu sína til þeirra kosta sem hér er verið að ræða meðan á meðferð málsins stendur er auðvitað fordæmalaus. Það að heyra hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kalla fram í áðan að afstaða muni koma fram í atkvæðagreiðslu til einstakra virkjunarkosta veldur því að við erum hér í algjörum blindingsleik og hann er á ábyrgð forseta sem verður að endurskoða úrskurð sinn um að þetta sé tækt mál. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa þegar boðuð er breyting á málinu að nefndin kalli málið aftur til nefndar, geri á því þær breytingar sem boðaðar hafa verið og málið komi aftur inn með nýjum rökstuðningi sem hald er í. Þetta er síðasta meðferð málsins. Það toppar síðan allt saman að heyra að hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, er ekki búinn að átta sig á því að um er að ræða síðari umr. málsins og að við höfum bara nokkra daga til þess að koma í veg fyrir þá óyndisniðurstöðu sem hér er lagt upp með.