144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina spurningum til forseta. Ætlar forseti að hunsa óskir minni hlutans um hlé á þingfundi og fund með þingflokksformönnum? Í öðru lagi spyr ég forseta hvort hann viti hvort það sé von á þessari breytingartillögu við breytingartillöguna inn í þingið fljótlega og hvort það sé þá í dag eða einhvern tímann á næstunni.

Úr sal hefur síðan verið kallað glaðhlakkalega að minni hlutinn sé í málþófi, rétt eins og það sé verið að ljóstra einhverju upp með því og að við eigum að fara hjá okkur. Við erum í andófi, hæstv. forseti, því að vinnubrögðin eru forkastanleg og við erum að beita því litla valdi sem við höfum til að koma í veg fyrir að meiri hlutinn gangi fram (Forseti hringir.) með þessum hætti.