144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn mótmælum við í minni hlutanum þeirri tillögu sem er á dagskrá, þ.e. breytingartillögunni við tillögu umhverfisráðherra til þingsályktunar. Við teljum hana ekki þingtæka.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að því miður mótmælum við kannski líka því sem hefur virst aðgerðaleysi forseta í að reyna að leysa þann mikla hnút sem kominn er upp á þinginu. Hins vegar hefur hann lýst því yfir að hann ætli að hafa fund með þingflokksformönnum í dag og þar vona ég sannarlega að eitthvað verði lagt til málanna til að leysa þessa deilu.

Einn nefndarmaður og flutningsmaður að þessari tillögu sem við erum að mótmæla flutti ræðu seint í gærkvöldi þar sem ekki var annað að heyra en að hann væri sáttin uppmáluð og teldi að með því að fólk talaði saman væri hægt að finna lausn á öllum málum. Ég bið forseta innilega að hlusta á þennan flokksbróður sinn og leggja fram einhverja góða tillögu til lausnar á málinu á (Forseti hringir.) fundi með þingflokksformönnum.