144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara upplýsa virðulegan forseta um að hæstv. forsætisráðherra hefur ákveðið að það eigi að vera sumarþing fram í júlí, skilst mér. Hann talaði mjög tæpitungulaust eins og þetta væri bara klappað og klárt, það væri bara búið að ákveða þetta. Ekki er það til þess að bæta ímyndina sem er núna einföld valdbeiting. Ég tek eftir því í málflutningi hv. þingmanna meiri hlutans, sér í lagi hv. 2. þm. Reykv. s., að hann snýr alltaf að valdinu. Allt er réttlætt með valdinu. Sömuleiðis rökstyðja hv. þingmenn dagskrána með því að þeir megi hafa hana svona og skora á minni hlutann að hleypa málunum í atkvæðagreiðslu, nananana, eins og það sé ekkert mál.

Þetta lýsir því viðhorfi að hér ráði valdið, ekki rökin, ekki staðreyndirnar, ekki skynsemin, ekki ábyrgðin og ekki fagmennskan, (Forseti hringir.) heldur valdið og það eitt.