144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni erum í allan morgun búin að vera að reyna að rétta út sáttarhönd, óska eftir því að við okkur sé rætt um stóru verkefnin í samfélaginu sem bíða. Þetta er svar stjórnarmeirihlutans. Það er að keyra hér inn í enn eitt kvöldið með mál sem svona miklar deilur eru um. Þetta er svar stjórnarmeirihlutans við boði og óskum okkar í stjórnarandstöðunni um að við eigum nú málefnalegt og gott samtal um brýnustu verkefnin í samfélaginu sem er að leysa kjaradeilur á vinnumarkaði. Þetta er framlag ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir hafa engan áhuga á því að taka þátt í lausn á deilum á vinnumarkaði, engan. Það sýnir sig best í þessari atkvæðagreiðslu.