144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég segi eins og hv. þm. Róbert Marshall að ég væri til í að vera hérna fram á kvöld ef við værum að ræða stóru málin sem eru brýn og alvarleg og þurfa að vera hér á dagskrá. En það er greinilegt að meiri hlutinn á þingi ætlar bara að setja hausinn undir sig og bolast áfram með frekjupólitíkina, það er þeirra háttur. Það er kannski ekki skrýtið að menn nái ekki neinu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins þegar þeir hafa ekki neina stjórn á samkomulagi við stjórnarandstöðuna, hafa ekkert í sér til að reyna að leita sátta. Það þarf alltaf að lokum að semja um þinglok og semja um mál, í lífinu líka eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi hérna í gær að hann þyrfti oft að semja um uppvaskið við konuna sína. Við erum kannski stödd á aðeins öðrum stað hérna en það er alltaf sami veruleikinn, menn þurfa að semja. Það er ekki bara: Ég ræð, get og vil.