144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var nú fyrirsjáanlegt, maður bjóst svo sem við því að vera hérna inn í nóttina. En ég vil vekja athygli á því að virðulegur forseti hyggst framlengja þingfundinn þegar það skortir sárlega á að hv. þingmenn meiri hlutans þekki stöðu málsins. Komið hefur fram að sumir hv. þingmenn átta sig ekki einu sinni á því að málið fer ekki aftur í nefnd, þetta er síðari umræða um þingsályktunartillögu.

Miðað við allar þær breytingartillögur sem hér hafa verið viðraðar … (VigH: Efnislega umræðu.) Virðulegi forseti, við erum að tala um rammaáætlun. Rammaáætlun er á dagskrá, er það ekki? (Gripið fram í: Nei, atkvæðagreiðsla.) Já, um að lengja þingfund um rammaáætlun. Það hlýtur að vera hægt að tala hérna um dagskrá undir fundarstjórn forseta (Gripið fram í.) með hliðsjón af málinu sem veldur öllu þessu brölti án þess að það sé efnisleg umræða. Alla vega er þetta er fullkomin tímasóun eins og við vitum öll hér inni. Við ættum að fresta þessu máli og tala saman um hvernig hægt er að fá þingið til að gera eitthvað af viti á næstu dögum, (Forseti hringir.) þeim fáu dögum sem eftir eru.