144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er verið að taka mál fyrir í ansi undarlegri röð. Ég veit ekki betur en hér rétt áðan hafi hæstv. forseti sagst ætla að boða þingflokksformenn á sinn fund. Ég skildi það sem svo að það væri til þess að ná einhverri lendingu eða alla vega einhverju samtali um það hvernig halda ætti umræðum hér áfram. Það er algerlega ótímabært að mínu mati að fara að greiða á þessari stundu atkvæði um hvort hér eigi að vera kvöldfundur. Auðvitað hlýtur fyrst að vera haldinn fundur með þingflokksformönnum og svo getum við greitt atkvæði um hvort hér eigi að vera kvöldfundur þegar niðurstaða þess fundar liggur fyrir. Þess vegna er ég algerlega á móti því að við förum að greiða atkvæði um þetta núna.