144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er til í að vera í því partíi sem hv. þingmaður var að lýsa hér áðan til að ræða um kjaramálin og lausn þeirra deilna. En ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki til í að styðja það að menn ætli að knýja hér fram fund um þetta mál í ófriði.

Ég ætla þá að gera kröfu um að hæstv. forsætisráðherra verði viðstaddur þessa umræðu fram á kvöld og geri okkur á einhverjum tímapunkti grein fyrir því með hvaða hætti rammaáætlun er lykill að lausn deilna á vinnumarkaði. (ÖS: Mætir hann í partíið?) Hann þarf að mæta í sitt eigið partí og gera grein fyrir því hvers vegna þetta er slíkt forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hvers vegna þetta er eina framlag stjórnvalda á Íslandi til lausnar á deilum á vinnumarkaði þar sem stefnir í að hátt í hundrað þúsund manns muni fara í verkfall. (Forseti hringir.) Það er ég til í en ekki þann dans sem forsetar hér, forseti Sjálfstæðisflokksins og forseti Framsóknarflokksins bjóða upp í. (Forseti hringir.)