144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Vegna frammíkalla stjórnarliða hér áðan þar sem þeir gerðu athugasemdir við að menn ræddu málið efnislega er auðvitað hægt að hafa skilning á því að það sé viðkvæmt fyrir stjórnarliða að ræða málið efnislega, enda er (Gripið fram í.) málið ákaflega neyðarlegt fyrir stjórnarliða. En þeir verða nú samt að una því að þegar rætt er um atkvæðagreiðsluna sé rætt efnislega um þá tillögu sem fyrir liggur, hversu vond sem hún er og hversu mjög sem hún er stjórnarliðinu til skammar.

Ekki verður hægt að halda umræðu um þetta dagskrármál áfram á morgun og einhverja næstu daga þannig að það er auðvitað hægt að hafa á því ákveðinn skilning ef forseti telur nauðsynlegt að halda umræðunni áfram fram í kvöldið. Þegar einstakir ráðherrar stjórnarliðsins og þingmenn hafa lýst því yfir að afstaða þeirra í málinu sé leyndarmál þá er auðvitað skiljanleg sú viðleitni að vilja að ræður þeirra verði fluttar hér í skjóli nætur. En ég held ekki að þetta verði neitt til að einfalda framgang málsins. Ég held að það væri affarasælast að ákveða einfaldlega nú á fundi með formönnum þingflokka að fara að tillögu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Ásmundar Friðrikssonar og láta málið ganga til nefndar (Forseti hringir.) og fara að sinna hér þarfari hlutum.