144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er sérstakt tækifæri núna að ná eyrum hv. þingmanna meiri hlutans þegar þeir eru í þingsal til að taka þátt í atkvæðagreiðslu.

Mig langar til að spyrja meiri hlutann: Er einhver þingmaður í meiri hlutanum sem sér að þetta gengur ekki lengur? Er einhver þingmaður sem getur aðeins lygnt aftur augunum og séð að staðan gengur ekki lengur, þetta gengur ekki lengur? Er einhver sem áttar sig á því að hver þingmaður meiri hlutans getur breytt stöðunni hér? (Gripið fram í: Jú.) Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Er einhver hissa á því að þessi ríkisstjórn og einstakir ráðherrar hennar skulu vera taldir gersamlega úr tengslum við almenning (Forseti hringir.) þegar staðan er sú sem hún er hér í dag?