144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég varð undrandi þegar forseti hringdi til atkvæðagreiðslu og þegar ég kom hér í þingsal og fékk að vita að hér ætti að greiða atkvæði um lengdan þingfund áður en fundur með þingflokksformönnum færi fram. Megum við sem sagt skilja það svo að forseti geri ráð fyrir að fundurinn með þingflokksformönnum, sem halda á nú á eftir, muni ekki skila neinum árangri? Eru það skilaboðin sem þingflokksformenn fara með inn á fund forseta að ljóst sé að það verði ekki jákvæð niðurstaða þar og það þurfi að brúka hv. stjórnarþingmenn til að ýta á já-takkann á meðan þeir eru í húsi? Þess vegna þurfi þetta að fara fram núna? Mér finnast það ekki góð skilaboð og vil biðja forseta að endurskoða það.