144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir því sem á umræðuna líður hefur komið í ljós að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vissi ekki einu sinni hver staðan á málinu væri í þinginu. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson er búinn að segja okkur að hann hafi ekki lesið grundvallarálit frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um lagalega stöðu þessa máls. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson ljóstraði því upp að hann héldi að Hagavatn hefði verið flutt milli flokka á síðasta kjörtímabili. Ég gæti haldið svona áfram endalaust um þær staðreyndavillur sem hafa komið fram hjá stjórnarmeirihlutanum í þessu máli, aftur og aftur, ekki bara einum þingmanni, ekki tveimur, ekki þremur, heldur miklu fleiri.

Virðulegi forseti. Þetta segir okkur að við þurfum í þessari lokaumræðu að gera hlé á henni en ekki kýla hana áfram eins og menn eru að gera hér í fullkominni blindni. Þetta segir mér líka að þessi stjórnarmeirihluti er tuddi. (Forseti hringir.) Hann ætlar að koma þessu máli í gegn sama hvað og hann hefur liðsstyrk forseta til þess.