144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:12]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þó að forseti hafi upprunalega ekki ætlað að blanda sér í þessa umræðu þegar verið er að gera grein fyrir atkvæði kemst forseti ekki undan því þegar honum er ögrað með þessum hætti til þess að svara og harmar ef hv. þingmaður upplifir það svo að forseti hafi viljað koma sér undan því að svara réttmætum spurningum. Hann vill þá reyna að gera það.

Forseti hefur, eins og allir hafa tekið eftir, verið ákaflega tregur til þess að halda kvöldfundi og reynt öll önnur úrræði fyrr, trúir því að hægt sé að ná árangri með samtölum og hefur þess vegna ævinlega brugðist vel við því þegar óskað hefur verið eftir þingflokksformannafundum eða að leiða menn saman.

Það er hins vegar mat forseta eins og staðan er núna að það hafi ekki skilað árangri, illu heilli, og þá sé ekki annað að gera við þessar aðstæður þegar mjög margir eru á mælendaskrá, umræður taka langan tíma, eins og allir hv. þingmenn vita, en að boða til kvöldfundar. Það er forseta ekkert ljúft, eins og allir vita, en við þessar aðstæður telur forseti það óhjákvæmilegt.