144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

kvöldfundur og umræðuefni fundarins.

[15:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig á stöðu mála hér, hversu lengi við eigum að vera hér inn í kvöldið. Ákveðið var af meiri hluta þingsins að við skyldum taka þetta mál fyrir á kvöldfundi, rammann. Í stað þess að ræða um stöðu mála á vinnumarkaði leggja menn svo mikið kapp á að þetta mál fari hér í gegn að ákveðið er að setja á kvöldfundi gegn vilja okkar sem hér erum. En andstaða okkar við kvöldfund felst í því að fjarvera ráðherra, sem hefur með málið að gera, hefur verið hrópandi. Ég vil því óska eftir því, eins og ég gerði hér fyrr í dag, að forsætisráðherra verði látinn koma hingað og segja okkur frá því að hvaða leyti þetta mál muni leysa deilur á vinnumarkaði. Ég held að við getum ekkert haldið áfram með þetta mál. Menn þurfa þá að skýra fyrir okkur mikilvægi þess að það sé keyrt áfram með þeim tuddaskap sem við höfum séð hér. Ef það er eitthvað slíkt í loftinu þá komi ráðherra hingað og greini (Forseti hringir.) okkur frá því.