144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur hefur verið fjarverandi úr þingsal í nokkra daga en hefur reynt að fylgjast með því sem er helst að gerast hérna og helstu fréttir af þinginu eru að héðan eru engar nýjar fréttir. Núverandi minni hluti hefur lagst þversum fyrir framfaramál sem afgreiða þarf og beitir gamalkunnum brögðum til að koma í veg fyrir að það mál fái framgang. Þess vegna er kaldhæðnislegt að heyra nú aftur minnst á bætta umræðuhefð sem skaut hér upp kollinum áðan vegna þess að það var akkúrat það sem maður hefði gjarnan viljað spyrja um út af því hvernig þetta mál núna hefur verið vaxið. Það mætti líka minnast á blaðrið um minna vesen sem margir hafa komið inn á og fengu kosningu út á en standa ekki við.

Það er til orð yfir fólk sem beitir svona gíslatökupólitík, það er tiltekið orð yfir fólk sem talar þvert um hug sér. Það er kallað á íslensku loddarar. Þess vegna væri rétt fyrir menn (Gripið fram í.) að láta af loddaraskapnum — og hér kallar fólk fram í sem kvartaði yfir frammíköllum í morgun. Það er vel en það væri kannski ráð að menn tækju saman höndum og afgreiddu þau framfaramál sem hér liggja fyrir. Það er nóg eftir, við höfum nógan tíma, við spörum okkur ekki einn dag, ekki eitt kvöld, ekki eina nótt til að ná fram þeim málum sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og ætlar að standa fyrir.