144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Svo maður haldi sig enn á skáldlegum nótum segir í gamalli hendingu, gömlu vísubroti:

Þegar mest ég þurfti við,

þá voru flestir hvergi.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort þetta eigi við um ríkisstjórn Íslands. Er hún kannski bara hvergi? Hvar er ríkisstjórnin? Er hún til enn þá? Er hún eiginleg ríkisstjórn? Er það þá ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem segir okkur að það sé fullkomin eining í ríkisstjórninni um húsnæðismál og boðar svo þing í allt sumar? Er það ríkisstjórn fjármálaráðherra sem boðar sína eigin útgáfu af þinghaldinu, þ.e. að þingið eigi að fara í pásu þegar hann er búinn að leggja fram frumvörp sín um gjaldeyrishöft og hittast svo aftur til að afgreiða þau? Er það ríkisstjórn félagsmálaráðherra sem boðar okkur að hún muni leggja fram sín eigin húsnæðisfrumvörp sjálf hvað sem líði afstöðu til þeirra í ríkisstjórn? Er það kannski ríkisstjórn iðnaðarráðherra með náttúrupassann sinn eða er það ríkisstjórn sjávarútvegsráðherra með kvótafrumvarpið sem aldrei kom fram?

Veruleikinn er sá að við búum við alveg óvenjulega tætta ríkisstjórn, að því er virðist, og ráðlausa gagnvart þeim verkefnum sem hún á að vera að sinna. Á vinnumarkaði er grafalvarlegt ástand og þær fréttir fékk maður þaðan í gær eftir að slitnaði upp úr viðræðum stærstu samtakanna að ríkisstjórnin væri beinlínis til trafala hvað það varðaði að komast eitthvað áfram með málið. Og af hverju var það? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin segir í orði kveðnu: Við erum tilbúin að leggja eitthvað af mörkum, greiða götu þess að hér náist skynsamlegir kjarasamningar með ýmsum skilyrðum, en þegar eftir því er leitað hvað stjórnvöld gætu lagt af mörkum fást engin svör. Ástandið vegna verkfallsins sem þegar er í gangi versnar dag frá degi með skelfilegum afleiðingum fyrir til dæmis ýmsar greinar landbúnaðarins, svo ekki sé minnst á ástandið í heilbrigðiskerfinu, (Forseti hringir.) inni á spítölum.

Og ríkisstjórnin er hvergi.