144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Samfélagið er við suðumark. Það stefnir í harðvítugustu átök á vinnumarkaði í manna minnum. Þau geta haft gríðarlegar afleiðingar fyrir okkur sem í þessu landi búum. Ég hef í ræðu og riti margoft hvatt ríkisstjórnina til að hafa miklu meira samráð við Alþingi, sveitarfélögin, atvinnulífið, launþegasamtökin og marga fleiri aðila og félög um langtímamarkmið og ýmsar nauðsynlegar umbætur. Ég mun seint þreytast á að kveða þá vísu vegna þess að ég er trúgjarn maður og ég trúi því þess vegna enn að það sé hægt að fá þessa ríkisstjórn til að halda á málum í anda þeirra fögru fyrirheita sem tíunduð eru í stefnuyfirlýsingu hennar. Þar segist hún ætla að virkja samtakamátt þjóðarinnar. Hún ætlar að vinna gegn sundurlyndi og tortryggni, eyða pólitískri óvissu og síðast en ekki síst að vinna að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.

Hvernig hefur þetta tekist? Er minna sundurlyndi, óvissa og vantraust í íslensku þjóðfélagi en var þegar ríkisstjórnin tók við fyrir tveimur árum? (BirgJ: Nei.) Er verið að byggja upp og skapa sátt? Nei, því fer fjarri. Hroki og frekja, það vonda par hefur varla lifað betri tíma en í dag og þau skötuhjú hafa alið af sér skaðlegt afkvæmi, mikla sérhagsmunagæslu og tilheyrandi óréttlæti við skiptingu þjóðarkökunnar.

Hvenær í ósköpunum verður hægt að hækka lægstu launin ef ekki núna?

Sjávarútvegurinn skilar miklum hagnaði. Ferðaþjónustan er orðin stærst atvinnugreina í gjaldeyrisöflun. Við heyrum hagnaðartölur hjá bönkunum sem eru með svo mörgum núllum að maður verður að klípa sig í handlegginn til að trúa niðurstöðunni. Verslun skilar milljarðahagnaði og ríkissjóður er rekinn með afgangi.

Hæstv. forseti. Það er kominn hálfleikur á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hefur spilað hörmulega í fyrri hálfleik. Hún ætti nú að rifja upp (Forseti hringir.) hvernig hún sagðist í stefnuyfirlýsingu sinni ætla að gera þetta. Það er þá kannski örlítil von til þess að hún fái ekki þann dóm sögunnar að vera sú ríkisstjórn lýðveldisins sem íslenskur almenningur var fegnastur að losna við.