144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:06]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að óska eftir sérstakri umræðu á Alþingi um húsnæðismál. Mig langar til að nýta tíma minn til að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem ég hef verið að vinna að í ráðuneytinu í sambandi við breytingar á framtíðarskipan húsnæðismála hér á landi og minna líka aðeins á það sem ríkisstjórnin hefur nú þegar gert.

Að baki þeim breytingum sem ég hef lagt til liggur það grundvallarmarkmið að allir Íslendingar eigi öruggt húsaskjól sem uppfylli þarfir þeirra. Enn fremur vil ég tryggja að þeir hafi raunverulegt val um búsetuform þannig að fólk geti í auknum mæli valið hvort það leigir eða kaupir sér íbúð eða búseturétt. Í þessari vinnu hef ég reynt að horfa heildstætt á húsnæðismál allra landsmanna og sérstaklega þeirra efnaminni þannig að þær lausnir og þeir valmöguleikar sem verða í boði henti sem flestum ef ekki öllum. Ég hef gjarnan litið á það verkefni sem við blasir á þessu sviði sem eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er horft til breytinga á fjármögnun húsnæðis hér á landi, annars vegar breytinga á fjármögnun félagslegs leiguhúsnæðis og hins vegar breytinga á almennum húsnæðislánum. Að því er varðar breytingar á fjármögnun félagslegs leiguhúsnæðis er markmið að efla uppbyggingu félagslegs leigumarkaðar á Íslandi og þá snýr verkefnið einnig að því hvernig efla megi og bæta umgjörð almennra húsnæðislána á Íslandi og auðvelda fyrstu kaupendum að spara og eignast eigið húsnæði.

Þegar hafa skref verið tekin í þá átt með skuldaleiðréttingunni en hluti af því var séreignarsparnaðarleiðin til þess að auðvelda fólki að spara fyrir fyrstu kaupum. Við sjáum þegar að hlutfall þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn er líka hér á höfuðborgarsvæðinu komið í kringum 20%, þótt meðalaldur þeirra sé aðeins hærri en var fyrir hrun.

Í öðru lagi vil ég leita leiða til að bæta leigumarkaðinn og styðja betur við efnaminni leigjendur með auknum húsnæðisstuðningi.

Í þriðja lagi hef ég leitað leiða til að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa hér á landi þannig að tryggja megi betur húsnæðisöryggi félagsmanna þeirra. Þegar er til umfjöllunar í velferðarnefnd frumvarp þess efnis.

Í fjórða lagi hvernig megi byggja hagkvæmari og ódýrari íbúðir þannig að byggingarkostnaður eða stofnvirði viðkomandi eignar leiði til þess að bæði kaupverð og leiguverð verði sem lægst á húsnæðinu. Þar af leiðandi höfum við þegar gert breytingar á byggingarreglugerð til að auðvelda það að byggja minna húsnæði.

Sú vinna sem við höfum verið að vinna að í ríkisstjórninni varðandi húsnæðismálin má rekja til þingsályktunartillögu sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram þar sem m.a. var lagt til að skipuð yrði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Henni var falið að kanna öll framangreind atriði sem ég nefndi hér og samhliða verkefnisstjórninni skipaði ég mjög breiðan samvinnuhóp um framtíðarskipulag húsnæðismála sem hafði það hlutverk að vera verkefnisstjórninni til ráðgjafar.

Þegar tillögurnar lágu fyrir í maí 2014 var hafin vinna að nánari útfærslu þeirra innan ráðuneytisins. Þessar tillögur eru mjög umfangsmiklar og því taldi ég rétt að vinna að þeim í nokkrum áföngum. Síðan hefur líka átt sér stað ágætis samráð í framhaldinu til að tryggja að vandað sé til verka, enda húsnæðismálin mjög brýnt hagsmunamál alls samfélagsins.

Við höfum unnið í fyrsta áfanga að gerð fjögurra frumvarpa sem ýmist hafa verið lögð fram á Alþingi eða eru á lokastigum. Markmið þessara frumvarpa er að auka framboð og fjölbreytni í búsetuformi á húsnæðismarkaði og tryggja öllum heimilum húsnæðisöryggi. Þar vil ég nefna eins og ég sagði áðan að þegar er komið fram frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög, einnig breytingar á húsaleigulögum. Síðan höfum við verið að vinna að frumvarpi sem snýr að breyttum húsnæðisstuðningi þannig að stuðningur við efnaminni leigjendur og búseturéttarhafa verði aukinn og jafnaður verði húsnæðisstuðningur hins opinbera við ólík búsetuform.

Ég hef líka verið talsmaður þess að við uppbyggingu félagslegs leigumarkaðar þurfi að koma til stofnframlög frá ríkinu og sveitarfélögum. Þeim stofnframlögum er ætlað að mynda grundvöll fyrir rekstur félagslegs leiguhúsnæðis. Þar hef ég hins vegar líka lagt mjög mikla áherslu á að ég vil ekki standa að gerð nýs fortíðarvanda í húsnæðismálum og hef því viljað lágmarka áhættu ríkissjóðs til lengri tíma.

Hins vegar er það þannig eins og hv. þingmaður lýsti að vandi margra er mikill á húsnæðismarkaðnum og til þess að leysa hann verða allir að koma að borðinu. Því hef ég verið í nánu samráði við samtök aðila á vinnumarkaði og sveitarfélög um lausnir er stuðla að uppbyggingu leigufélaga sem og húsnæðissamvinnufélaga þar sem í boði verði hagkvæmar íbúðir í því skyni að draga verulega úr húsnæðiskostnaði og sem getur vonandi orðið hluti af lausninni á mjög erfiðri stöðu á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Hér undir erum við einfaldlega með öll heimili landsins. Húsnæðismálin eru í mínum huga þverpólitísk. Ég held að við látum öll okkur þetta miklu varða. Við þurfum að koma okkur saman um það og þá ekki síst í samvinnu við þá aðila sem eru leiðandi í ákvörðunum um afkomu vinnandi fólks (Forseti hringir.) á íslenskum vinnumarkaði hvernig við viljum haga þessu. Ég vona svo sannarlega að við sem munum taka (Forseti hringir.) þátt í þessari umræðu eigum eftir að eiga góða og efnismikla umræðu um þetta mikilvæga mál.