144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er stundum talað í þessum sal eins og það sem hér er gert geti ekki haft nein áhrif á ástand á vinnumarkaði eða til lausnar á kjaradeilum. Reyndar er þetta breytilegt eftir dögum. Í gær var það talið vera mikið innlegg til lausnar á kjaradeilum að fara að virkja, en í dag heyrum við síðan hinn gamalkunna söng um að í rauninni fátt skipti máli sem við gerum hér til þess að leysa kjaradeilur. Núna erum við að ræða málefni sem ég held alveg örugglega, og það sé öllum ljóst, hefði mikil áhrif á ástand á vinnumarkaði ef okkur tækist vel til. Húsnæðiskostnaður og hvernig hann þróast ræðst mjög af ákvörðunum sem hér eru teknar og á vettvangi sveitarfélaga. Það er ömurlegt að við skulum ekki vera að ræða metnaðarfull húsnæðisfrumvörp sem margoft er búið að boða og í stað þess séum við að ræða hér alla daga allt aðra hluti.

Ég vil á þessum stutta tíma vekja athygli á málflutningi Samtaka iðnaðarins undanfarið um það hvernig hægt væri að lækka byggingarkostnað og breyta hvötum í regluumhverfi og gjaldaumhverfi sveitarfélaganna og ríkisins þannig að fleiri smærri íbúðir yrðu byggðar. Á dögunum birtist ágætisgrein eftir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Þar segir hann að miðað við þá útreikninga sem Samtök iðnaðarins hafi gert þá geti það, með leyfi forseta, „leitt til lækkunar byggingarkostnaðar að meðaltali um 4–6 millj. kr. á hverja íbúð af stærðinni 80–120 fermetrar“.

Ég held að við eigum að hlusta á svona hluti og við verðum að fara í þetta verkefni af mjög yfirgripsmiklu raunsæi. Ég held að það þurfi að snúa mjög mörgum tökkum í samfélaginu til þess að ná íbúðaverði niður til að auka framboð á litlum (Forseti hringir.) íbúðum og til að minnka kostnaðinn. Þar komum við að sjálfum grundvelli efnahagslífsins sem er vaxtastigið og það allt saman og hvort (Forseti hringir.) við ætlum að hafa þennan gjaldmiðil endalaust.