144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er öllum mikilvægt að það sé raunhæft val um búsetuform á húsnæðismarkaði. Í dag getum við ekki sagt að þetta raunhæfa val sé til staðar og það eru nokkrar ástæður fyrir því. Það er of lítið framboð af leiguhúsnæði, leiguverð er hátt og því miður búa margir ekki við langtímaleigu.

Einnig er erfitt fyrir fólk, sérstaklega fyrstu kaupendur og líka þá sem misst hafa húsnæði vegna einhverra saka, að komast aftur inn á þann markað vegna t.d. lánafyrirkomulags eða fjármögnunar á húsnæði. Þess vegna er mikilvægt og ég fagna þeirri leið sem ríkisstjórnin kom með að hægt sé að nýta séreignarsparnað til þess að safna sér fyrir útborgun í íbúð, en auðvitað þarf meira til og þar þarf jafnvel að endurskoða byggingarrreglugerð o.fl.

Við verðum að horfa á það að ekki vilja allir kaupa húsnæði. Ef við einblínum aðeins á leigumarkaðinn þá er mjög mikilvægt að við aukum húsnæðisbætur til þeirra sem eru á leigumarkaði, og á móti væri afar gagnlegt að skoða, og ég tel að það sé gert, hvort við getum komið fram með einhverjar ívilnunaraðgerðir á móti til þess að leiguverð hækki ekki þegar bætur aukast. Það getur verið t.d. skattaívilnanir til þeirra sem koma leiguíbúðum inn á langtímaleigumarkað og t.d. lægri skattgreiðsla af þeim íbúðum. En það er mikilvægt að við horfum til þessa og að við lækkum leiguverð, af því að ef einstaklingar eiga að geta haft svigrúm til þess að safna sér fyrir innborgun í íbúð þá þurfum við að lækka leiguverð.