144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið góð og upplýsandi. Mig langar að nefna nokkra þætti hér í lok hennar.

Í fyrsta lagi var nefnt að við hefðum í kerfinu verið að styðja fólk til lántöku og það væri öfugur hvati í gegnum tíðina. Við í Samfylkingunni höfum lagt til eflt kerfi húsnæðissparnaðar sem nýtist öllum, ekki bara þeim sem eru á vinnumarkaði núna, en ég tek vara við að halda að það sé fullkomin, endanleg lausn. Það er auðvitað þannig að öll lönd aðstoða fólk við að niðurgreiða lántökukostnað og við fæðumst ekki öll svo rík að við þurfum ekki á lánum að halda til að eignast húsnæði. Þess vegna er mikilvægt að þróa nýtt kerfi viðbótarlána og mikilvægt er að hækka vaxtabætur sem hafa, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, rýrnað verulega í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Í annan stað þurfum við auðvitað að fara að sjá beinharðar aðgerðir frá ríkisstjórninni. Hæstv. ráðherra sagðist vilja horfa heildstætt á húsnæðismálin. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi gert alveg nóg af því að horfa á þessi mál. Það eru orðin tvö ár sem hún hefur horft á málin. Það þarf ekkert að horfa meira á þau. Við þurfum beinharðar aðgerðir í auknu framboði leiguhúsnæðis. Ég rakti margar tillögur, sem við höfum lagt fram, smáar sem stórar og ríkisstjórnin verður að koma með sínar tillögur í þessu efni. Hún þarf að gera það upp við sig með hvaða hætti hún vill haga stofnstyrkjum og koma með tillögur hér inn um það. Hún hefur haft ár til þess núna. Það þarf að hækka húsaleigubætur. Það þarf líka að taka ákvörðun um húsnæðislánastofnanir vegna þess að það var rætt hér líka. Við höfum lýst okkur tilbúin til þess í Samfylkingunni að horfa á hið danska kerfi húsnæðislánastofnana og hins vegar að ein slík sé í opinberri eigu sem verði byggð á grunni Íbúðalánasjóðs. Við teljum mikilvægt að það sé þannig að ríkið eigi eina húsnæðislánastofnun í nýju kerfi.

Boltinn er hjá ríkisstjórninni. Hann er búinn að vera þar í ár, frá því verkefnisstjórnin skilaði af sér. Í tvö ár frá því hún tók við. Við verðum að fara að sjá aðgerðir. Það þarf ekki að horfa meir.