144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:43]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli fundarstjórn forseta enn og aftur. Eins og margoft hefur komið fram vil ég fá svör við því af hverju við erum að ræða hér breytingartillögu sem er ekki í samræmi við það sem ráðherra málaflokksins hefur lagt fram, ekki í samræmi við álit lögfræðinga þeirra ráðuneyta sem að málinu koma og ekki í samræmi við það sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt fram.

Til að geta rætt þetta mál þurfum við að hafa á hreinu hvað við erum í rauninni að ræða. Ég veit að þetta getur verið flókið fyrir þá sem heima sitja og eru úti í samfélaginu, en það sem liggur undir er ekki bara þingsályktunartillaga ráðherra heldur heilmiklar breytingartillögur frá meiri hluta atvinnuveganefndar og við þurfum að fá að vita hvort þetta sé í rauninni þingtækt.