144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér þykir leitt að ekki hafi komið neitt haldbært út úr fundi hv. þingflokksformanna sem haldinn var hér áðan. Mér finnst jákvætt að sá fundur hafi verið haldinn en leitt að ekkert haldbært hafi komið út úr honum því að það gengur ekki að við eyðum tíma þingsins í að ræða tillögu sem stangast á við lagaramma um rammaáætlun. Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði ágætlega grein fyrir áðan liggur fyrir að verkefnisstjórn vinnur samkvæmt ákveðinni tímaáætlun og það sem hvarflar að manni er að hv. þingmenn í meiri hlutanum treysti sér hreinlega ekki til að bíða eftir þeim tillögum, að þeir hafi pólitískar áhyggjur af að bíða eftir þeim tillögum þegar það liggur algjörlega fyrir að þetta er það sem Alþingi verður að gera ef Alþingi ætlar að fylgja hinu lögbundna ferli.

Ég mótmæli því enn og aftur að þetta mál sé hér á dagskrá, mál sem enginn hv. þingmaður getur með góðri samvisku stutt að sé á dagskrá miðað við þann lagaramma sem við erum með í gildi.