144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég á ekki aukatekið orð yfir greinargerð með þessari breytingartillögu. Gengur það, virðulegi forseti, að þessi meiri hluti atvinnuveganefndar leggi fram tillögu og geri svofellda grein fyrir henni?

„Hér er lagt til að fallið verði frá tillögu um að Hagavatnsvirkjun færist í nýtingarflokk enda eiga önnur sjónarmið við um hana en aðrar virkjanir í tillögunni …“

Hvaða önnur sjónarmið? Þessi önnur sjónarmið er að finna — hvar? Til dæmis í umsögn umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fjallar um ólögmæti tillögunnar og gerir líka grein fyrir því að sami vandi lýtur að Skrokkölduvirkjun og líka þeim sem snúa að hinum virkjununum í neðri hluta Þjórsár.

Hvaða önnur sjónarmið er verið að tala um hér? Það er ótækt annað en að meiri hluti atvinnuveganefndar standi fyrir (Forseti hringir.) máli sínu hvað þetta varðar.