144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það tókst loks að særa fram þá breytingartillögu við breytingartillöguna sem hér hefur verið á dagskrá og við höfum í raun kallað eftir allt síðan síðasta föstudag. Það var svo sem ekki lengi gert að kynna sér efni hennar því að greinargerðin með henni er ekki nema þrjár línur þar sem segir að tillaga um að Hagavatnsvirkjun færist í nýtingarflokk sé dregin til baka enda eigi önnur sjónarmið við um hana en aðrar virkjanir í tillögunni. Hér hefði verið ágætt að fá að vita eitthvað um það í hverju þessi sjónarmið felast. En gott og vel, þessi breytingartillaga við breytingartillöguna er komin fram. Er þá ekki næst að fá að vita hjá hæstv. forsætisráðherra hvernig hann telur þessa umræðu vera innlegg í kjaraviðræður? Það stendur enn þá út af.