144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um rammaáætlun og breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin fékk mjög marga aðila á sinn fund og fór vel yfir málið og fjallaði um það á fjöldamörgum fundum. Þar komu fram eins og gengur margvísleg og ólík sjónarmið sem eðlilegt er þar sem málið er umdeilt, og það á að vera það þar sem við erum að ræða stórt mál sem snertir framtíð og framþróun í landinu, leggur línur varðandi lífsskilyrði komandi kynslóða og sambúð og umgengni við náttúruna. Þegar talað er um virkjunarkosti vill umræðan oft fara í þá átt að einungis sé um tvo hópa fólks að ræða með gagnstæða skoðun, þá sem vilja virkja allt og hina sem ekkert vilja virkja.

Auðvitað er það ekki svo því að þar á milli er stór hópur landsmanna sem vill hófsama og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í þeim hópi tel ég mig vera. Ég vil skoða alla kosti vel og ígrunda áhrif þeirra framkvæmda á umhverfið og náttúruna með hliðsjón af sjálfbærri þróun sem byggist á þremur meginstoðum, sem eru samfélagsmál, efnahagur og náttúra.

Við búum í landi mikilla náttúruauðlinda sem okkur ber að umgangast af virðingu. Til okkar er litið vegna þess að Íslendingar eru á margan hátt fyrirmynd annarra þjóða um sjálfbæra orkunýtingu og jafnvel talað um Ísland og vitnað til landsins sem grænnar orkueyju. Hér í þessari umræðu erum við að tala um virkjunarkosti en ekki hvað við ætlum að gera við orkuna, þessi umræða afmarkast því við það.

Hlutverk rammaáætlunar er að flokka bæði í nýtingu og vernd, en hafa verður í huga að þótt búið sé að flokka kostina á þann hátt er ekki þar með sagt að það sé endanlegt, því að alltaf er möguleiki á að færa kosti úr þessum flokkum komi fram gild rök fyrir því. Verkfærið sem búið hefur verið til er flókið og mikið ferli sem krefst ítarlegra og nákvæmra rannsókna og kannana. Við skulum líka hafa í huga að Ísland er eina landið í heiminum sem hefur unnið rammaáætlun um nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda. Það er í sjálfu sér merkilegt og gott en raunin er sú að frá upphafi hafa verið deildar meiningar um það hvernig meta eigi virkjunarkosti heildstætt. Það hefur jafnvel hver sína meiningu. Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 er þetta þó tekið skýrt fram, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Öll vinna við rammaáætlun miðar nú að því að flokka virkjunarkosti í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Þegar af stað var haldið í þessa vinnu var eðlilega ekki til fullbúin aðferðafræði þar sem hér var um frumkvöðlavinnu að ræða. Vinnuferlið hefur þó verið í þróun og ekki ólíklegt að einhverjar meiri breytingar muni verða. Sýnist mér að gott væri til dæmis að skoða biðflokkinn betur og víkka hann jafnvel út eða skipta í tvo flokka þar sem annar mundi innihalda kosti sem möguleiki væri á að rannsaka betur til að ákvarða um framhald vinnu og auka svigrúm og skilvirkni.

Faghópar sem verkefnisstjórn skipar hafa það verkefni með höndum að afmarka áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda og meta fjölmarga þætti innan svæðisins fyrir virkjun. Vinna hópanna skiptist í þrjú stig sem felast í því að meta og raða svæðum eftir gildum sem hver hópur metur. Meta á áhrif virkjunar á þessa þætti og síðan að raða virkjunarkostum frá lakasta til besta kosts út frá matinu. Eðlilega raðast kostirnir ekki eins frá faghópunum þar sem þeir vinna út frá mismunandi gildum. Það er síðan hlutverk verkefnisstjórnar að samþætta gögn faghópanna og sameina niðurstöður þeirra í endanlega röð.

Lykilorð í rammaáætlun er faglegt mat. Í athugasemdum kemur fram að verndar- og nýtingaráætlun taki til virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um. Þannig er miðað við að Alþingi taki ekki afstöðu til annarra virkjunarkosta en verkefnisstjórnin hefur fjallað um. Í því felst á engan hátt að Alþingi sé bundið af tillögum verkefnisstjórnarinnar eða ráðherra um flokkun virkjunarkosta, heldur einungis að áður en Alþingi fjallar um áætlunina liggi fyrir faglegt mat á virkjunarkostum og landsvæðum.

Í greinargerð verkefnisstjórnar kemur fram að allir virkjunarkostir í Þjórsá hafa fengið faglegt mat í 3. áfanga. Skrokkalda fór í gegnum faglegt mat í 2. áfanga. Atvinnuveganefnd hefur fengið mikið af upplýsingum inn á borð til sín um umrædda kosti en það er alveg ljóst að nefndin sem slík getur ekki lagt faglegt mat á einstaka kosti. En Alþingi er ekki bundið af tillögum verkefnisstjórnar eða ráðherra um flokkun virkjunarkosta heldur eingöngu af lögum nr. 48/2011, þar á meðal að fyrir liggi faglegt mat á virkjunarkostum og landsvæðum.

Ég stend að tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar á þessum grunni og þeirri vissu að þegar virkjunarkostur er kominn í nýtingarflokk er langt ferli fyrir höndum. Þá er eftir að fara í gegnum ferli sem kallast umhverfismat framkvæmda, sem er mun dýpra og nákvæmara en umhverfismat áætlana. Í því ferli geta komið fram gild rök fyrir því að færa kost úr nýtingarflokki.