144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því mjög þegar þingmenn stjórnarflokkanna koma í ræðu, eins og hv. þingmaður gerir nú, og skýra sjónarmið sín. Ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður sagði, eins og það að ítarlegar og mikilvægar kannanir þurfi að eiga sér stað áður en flokkað er og að lykilorðið sé faglegt mat og að atvinnuveganefnd geti ekki lagt mat á hið faglega mat heldur sé það verkefnisstjórnarinnar.

Það tel ég meiri hluta atvinnuveganefndar ekki hafa gert þegar hún færði þessar fjórar virkjanir úr biðflokki í nýtingarflokk. Það styð ég meðal annars þeim rökum sem umhverfisráðuneytið hefur sett fram en þeir gera ráð fyrir að Alþingi geti ekki gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hafi ekki farið fram hvað þá varðar. Þetta segir umhverfisráðuneytið.

Mín spurning til hv. þingmanns er hvort hún telji að hið faglega mat hafi átt sér stað. Það hefur ekki gert það og það er ekki rétt að verkefnisstjórn 3. áfanga hafi skilað því, það var það sem ráðherrann treysti sér ekki til að koma með til þings, vegna þess að það var ekki búið. (Forseti hringir.)

Mín fyrsta spurning er hvað hv. þingmaður segir um álitið sem kemur fram í minnisblaði umhverfisráðuneytisins.