144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frekar finnst mér svarið rýrt og finnst eins og hv. þingmaður veigri sér við að svara spurningu minni um þetta álit. Það er álit, það er mat, það eru lögfræðingar ráðuneytisins sem setja þetta fram með samþykki ráðherrans, ekki núverandi ráðherra heldur fyrrverandi vegna þess að þetta var gert í nóvember. Því ítreka ég spurningu mína um þetta álit ráðuneytis sem segir að ekki hafi verið farið eftir hinu lögbundna ferli og þess vegna geti þingið ekki breytt þessu.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann hvort henni hafi verið kunnugt um minnisblaðið áður en hún stóð að þessari breytingartillögu og því að taka málið út úr nefnd eins og gert var, vegna þess að það kom fram í ræðu hv. þingmanns að skoða ætti alla kosti vel. Það hefur ekki verið gert, verkefnisstjórn 3. áfanga gat ekki skilað til fyrrverandi ráðherra tillögu um þessa virkjunarkosti og þess vegna tók þáverandi umhverfisráðherra þann kostinn einan að leggja fram tillögu um eina virkjun, þ.e. Hvammsvirkjun, úr biðflokki í nýtingarflokk, vegna þess að það var það eina sem verkefnisstjórnin lagði til. (Forseti hringir.)

Ég ítreka spurningu mína um álitið frá ráðuneyti, sem er lögfræðiálit, og það hvort hv. þingmanni hafi verið kunnugt um þetta minnisblað áður en málið var tekið út úr nefnd.