144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fylgja þessari spurningu eftir vegna þess að hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Þórunn Egilsdóttir tala um að þeir kostir sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur fram hafi fengið faglega umfjöllun í verkefnisstjórn. Hvernig er hægt að rökstyðja það ef formaður verkefnisstjórnar, sem kom fyrir atvinnuveganefnd, segir að ekki sé búið að skoða áhrif á til dæmis Hagavatnsvirkjun og Skrokköldu og þess vegna hafi verkefnisstjórn ekki treyst sér til að leggja til við hæstv. ráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, nema einn kost af þeim átta sem hæstv. ráðherra vildi láta meta. Er þetta ekki eins kristaltært og hægt er að segja? Eru menn að lýsa vantrausti á formann verkefnisstjórnar, Stefán Gíslason? Hann segir þetta þegar hann kemur fyrir nefndina og báðir hv. þingmenn hlustuðu á orð hans. Hvernig í ósköpunum er hægt að misskilja það?