144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er orðið hálfvandræðalegt að fá ekki almennileg svör við þessu og mundi maður nú reikna með að nefndarmenn hv. atvinnuveganefndar hefðu meira í farteskinu en þetta inn í umræðuna, að geta ekki rökstutt sitt mál betur. Skildi þá hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson þetta ekki? Misskildi hann eitthvað þegar hann fékk bara einn kost, Hvammsvirkjun, út úr verkefnisstjórn? Var það þá einhver misskilningur hjá honum sem meiri hluti atvinnuveganefndar skildi miklu betur? Það kom fram í ræðu hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur að hún sagði sem rétt er: Nefndin getur ekki haft faglegt mat á einstökum kostum. Það er stóra málið í þessu öllu, að menn misskilja þá eitthvað hlutverk sitt. Menn geta komið með breytingartillögu um Hvammsvirkjun en ekki einhverja gjörólíka kosti sem eru ekki búnir að fara í gegnum þetta faglega ferli og út með tillögu frá verkefnisstjórn. Menn verða bara að viðurkenna það að þeir gerðu mistök, stór mistök, sem þeir hafa leiðrétt að hluta til. Vildi ég gjarnan fá fram rökstuðning fyrir því hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur út af hverju menn hafa nú dregið Hagavatnsvirkjun til baka. Hvaða rök liggja fyrir því? Og viðurkenna þá vonandi að þar hafi auðvitað verið mistök á ferð vegna þess að það er ekki hlutverk nefndarinnar að flokka í nýtingu, vernd eða bið, nema fjalla um þá kosti sem eru komnir inn á þeim forsendum sem á að gera gegnum verkefnisstjórn og ráðherra leggur síðan fram, eins og gert var með Hvammsvirkjun. Þótt hún sé vissulega umdeilanleg var þó farið eftir lögformlegum leiðum.