144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er skrýtið að halda þessari umræðu áfram þegar í ræðum stjórnarmeirihlutans er farið með svo mikla endaleysu og staðlausa stafi að fólki er bara brugðið og ekki hægt að halda áfram umræðunni undir þeim formerkjum að það er í raun og veru verið að lýsa vantrausti á verkefnisstjórn sem starfar núna og hefur fjölda kosta til að fara yfir og meta faglega.

Svo kom fram í ræðu hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur að atvinnulífið hefði verið við það að stöðvast á síðasta kjörtímabili vegna þess að það hefði ekkert verið virkjað og þess vegna þurfi að drífa í því að virkja strax og fara fram hjá öllum faglegum ferlum. Virkjanir á síðasta kjörtímabili, Hellisheiðarvirkjun og Búðarhálsvirkjun skiluðu 535 megavöttum og fleiri voru í pípunum í þeim efnum sem ég ætla ekki að telja upp hér. Er þetta einhver röksemd og málflutningur í þessu máli?