144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir að mér finnst málflutningur hv. formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, ekki halda vatni. Í raun afhjúpaði hv. þingmaður, held ég, misskilninginn sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson var að ræða áðan þegar hann lét að því liggja og talaði eins og að það væri nóg til að fullnægja skilyrðum laganna, anda á inntaki laganna úr rammaáætlun, að verkefnisstjórn hefði bara litið á einhvern kost og kannski rætt hann á einum fundi, þá væri þessu fullnægt. Auðvitað er þetta svo fráleit túlkun og fráleitur skilningur að ég vona að hv. þm. Jón Gunnarsson sé einn um hann.

Verkefnisstjórnin tók þessa kosti einmitt fyrir að beiðni ráðherra, skilaði síðan af sér niðurstöðu sem felur í sér í reynd staðfestingu á því að það var rétt ákvörðun á fyrra kjörtímabili að hafa þessa flokka í bið vegna þess að verkefnisstjórnin segir: Það vantar rannsóknir og gögn um fiskgengd og áhrif mótvægisaðgerða því að við höfum ekki faghópa sem geta tekið þetta nánar fyrir. Þess vegna eru engar forsendur til að breyta flokkum (Forseti hringir.) þessara kosta að svo stöddu. Það er niðurstaðan, ráðherrann fellst á hana, er mér sammála og leggur þannig fram (Forseti hringir.) tillöguna. Þess vegna er þessi málatilbúnaður svo hrottalega á skjön við allt sem fyrir liggur að öðru leyti (Forseti hringir.) í ferlinu. Stjórnarmeirihlutinn er í bullandi mótsögn við sjálfan sig, a.m.k. við ráðherra sína, með þessu brölti.